top of page

Heilsuvernd Hjúkrunarheimili er 1 árs í dag

1. maí 2022


Við eigum afmæli í dag !


Það er gaman að segja frá því að Heilsuvernd Hjúkrunarheimili hefur nú starfað í 1 ár á Akureyri eftir að við tókum við rekstri Öldrunarheimilanna. Á þessum tíma höfum við með mikilli þrautseigju, áræðni, skýrri framtíðarsýn og ekki síst með okkar frábæra starfsfólki náð góðum árangri. Það er heiður að starfa með hópi fólks sem brennur fyrir því að gera vel.


Á þessum stutta tíma hafa verið gerðar breytingar sem hafa skilað jákvæðri niðurstöðu á mörgum sviðum. Ný kerfi hafa verið innleidd í bókhaldi, launavinnslu, viðverustjórnun, samskiptakerfi og símkerfi svo fátt eitt sé nefnt. Búið er að vinna ötullega að vísindarannsókn varðandi mataræði íbúa. Breytingar hafa orðið samhliða á eldhúsi, aðbúnaður bættur verulega og heyrum við af ánægju með matinn sem hefur verið eitt af áhersluatriðum. Það var ráðist í umfangsmikil búnaðarkaup, dýnur og hjálpartæki fyrir heimilin. Farið í endurnýjun á aðstöðu sjúkraþjálfunar. Þá voru gerðar breytingar á yfirstjórn og mönnunarmódeli. Allt hefur þetta og mun skila betri árangri inn í framtíðina er ég sannfærður um. Það að vera í fararbroddi er þar sem við viljum vera. Það er stöðugt verkefni, við fögnum þeirri áskorun.


Óhætt er að segja að þetta ár hafi markast af breytingarstjórnun innan félagsins. Það hefur sannarlega tekið á samhliða glímu við óútreiknanlegan heimsfaraldur og áskoranir í mönnun líkt og allar heilbrigðisstofnanir um landið. Okkur hefur tekist á þessum tíma hið ótrúlega má segja. Við höfum bætt þjónustu, upplýsingagjöf og samskipti innan hópsins. Þá hafa gæði aukist sem við sjáum á RAI mælitæki, á sama tíma og hjúkrunar og umönnunarþyngd hefur vaxið. Síðast en ekki síst gengur rekstur félagsins með ágætum og skilaði afgangi í lok síðasta árs sem ég vil segja að sé frábært í ljósi alls þessa.


Þegar við horfum yfir síðasta ár þá má segja að flest af því sem við sáum fyrir að þyrfti að gera hefur gengið upp, enn eru verkefni framundan og við horfum björtum augum fram á veginn. Við ætlum okkur að vera virkur þáttakandi í mótun öldrunarþjónustu til framtíðar og hlökkum til þess verkefnis. Við óskum íbúum, aðstandendum þeirra og öllu okkar starfsfólki hjartanlega til hamingju með daginn. Þið eruð frábær og takk fyrir ykkur!


Teitur Guðmundsson

Forstjóri Heilsuverndar samstæðu


bottom of page