top of page

Heilsuvernd Hjúkrunarheimili - VIRKt fyrirtæki 2023

Í dag hlaut Heilsuvernd Hjúkrunarheimili viðurkenningu frá Virk sem VIRKt fyrirtæki 2023.


Viðurkenninguna hljóta fyrirtæki sem meðal annars eru viljug til þess að ráða einstaklinga með skerta starfsgetu, eru í reglulegu sambandi við atvinnulífstengla VIRK um laus störf eða tækifæri á vinnusamning eða vinnuprófun innan fyrirtækis. Liðki fyrir því að einstaklingar í atvinnuteningu VIRK verði boðið í atvinnuviðtal. Sýna skilning og sveigjanleika gagnvart starfsendurhæfingu og endurkomu í vinnu og fræði starfsfólk um mikilvægi þess.


Í tilkynningu frá VIRK segir: ,,Viðmót ykkar og viðhorf gagnvart þjónustuþegum atvinnutengingar VIRK, sem í mörgum tilfellum búa við skerta starfsgetu, er til fyrirmyndar og vildum við koma því á framfæri á þennann hátt.

Jákvætt samstarf hefur alltaf verið við stjórnendur á Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri. Stofnun ykkar hefur ávallt verið jákvæð á samstarf og stuðning við einstaklinga í leit að starfsprufu og/eða starfi og þið hafið verið tilbúin til ráðgjafar og stuðnings. Einstaklingum hafa boðist tækifæri í flestum deildum til vinnuprufu sem hafa leitt til ráðninga, á grundvelli samstarfs við Virk – starfsendurhæfingarsjóð.

Framlag ykkar skiptir sköpum og þið sýnið samfélagslega ábyrgð í verki með því að bjóða einstaklingum með skerta starfsgetu tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum á vinnumarkaði. Í ykkar höndum hafa einstaklingarnir fengið tækifæri og styrkts til enn meiri og oftast fullrar vinnugetu.

Rannsóknir hafa sýnt að það að vera með starf er mikilvægt fyrir bæði heilsu og velferð einstaklingsins og er samfélagslega mikilvægt og hagkvæmt.

Einlægar þakkir til ykkar fyrir gott samstarf og megi það halda áfram að vaxa og dafna í framtíðinni."

Við þökkum kærlega fyrir þessa viðurkenningu og VIRK fyrir gott og ánægjulegt samstarf í gegnum árin.

bottom of page