top of page

Samið við Heilsuvernd um rekstur hjúkrunarheimila Akureyrarbæjar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest samning sem gerður hefur verið milli Sjúkratrygginga Íslands og Heilsuvernd Hjúkrunarheimili ehf. um rekstur Öldrunarheimila Akureyrar, (ÖA). Heilsuvernd tekur við rekstrinum frá og með 1. maí nk.


Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, fagnar því að náðst hafi samkomulag við nýjan rekstraraðila. „Við höfum lagt áherslu á það í viðræðum okkar við SÍ að það góða starf sem unnið hefur verið síðustu árin og áratugina hjá ÖA verði þróað áfram og að gætt verði að velferð íbúa og hagsmunum starfsfólks. Það er ánægjulegt að þessu máli hafi loksins verið siglt farsællega í höfn og ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki ÖA þá miklu þolinmæði og þrautseigju sem það hefur sýnt við erfiðar aðstæður á tímum Covid-19."


María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, er ánægð með að samningar séu í höfn. „Þessi þjónusta byggist fyrst og fremst á mannauði – fólkinu sem sinnir íbúum frá degi til dags. Hún er því vel tryggð til framtíðar þar sem starfsmenn ÖA munu halda áfram að sinna henni undir merkjum nýs rekstraraðila. Akureyrarbær hefur lagt mikinn metnað í að byggja upp þjónustu við aldraða m.a. með áherslu á nýsköpun og nýtingu tæknilausna. Heilsuvernd er öflugt fyrirtæki með mikla reynslu af ýmiss konar heilbrigðisþjónustu m.a. öldrunarþjónustu. Þau taka við keflinu af Akureyrarbæ og munu halda áfram að þróa og byggja upp gæðaþjónustu fyrir íbúa hjúkrunarheimilanna. Fyrir hönd SÍ þakka ég Akureyrarbæ fyrir sína þjónustu og býð Heilsuvernd velkomna til samstarfs."


Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, þakkar traustið sem þeim er sýnt. „Við erum hreykin og hlökkum til að takast á við þetta verkefni og starfa með þeim góða hópi starfsmanna og stjórnenda Öldrunarheimilanna sem hafa verið svona framarlega í þjónustu við aldraða á Íslandi. Við viljum byggja til framtíðar á þeim góða grunni og nýta þau tækifæri sem felast í samlegð við aðra þjónustuþætti innan okkar raða og nýsköpun á þessu sviði. Það hefur verið gott samstarf við Akureyrarbæ í aðdraganda þessa samnings og við eigum von á því áfram í framtíðinni varðandi uppbyggingu öldrunarþjónustu á Akureyri. Þá erum við ánægð með samstarfið við Sjúkratryggingar Íslands og finnum fyrir jákvæðni og meðbyr við verkefnið, enda er um að ræða eina mikilvægustu starfsemi í heilbrigðisþjónustunni sem er að hlúa að þeim sem byggðu þetta land. Við munum leggja okkar af mörkum til að þetta gangi vel og í samstarfi við starfsmenn, hagsmunaaðila og síðast en ekki síst íbúa og aðstandendur heimilanna."


Fréttin birtist fyrst á vef Akureyrarbæjar þann 15.04.2021


bottom of page