
skorkort
Hluti af gæðastefnu hjúkrunarheimilana er að gera svokölluð skorkort þar sem settar eru upp sömu víddir og í stefnukorti, það er: þjónusta, mannauður, rekstur og þróun, gæði og ferlar – stöðug þróun.
Skorkortin eru sett þannig fram að sett eru fram markmið sem snúa að ofantöldun víddum en niðurstöður skorkortana byggja annars vegar á tölfræðilegum samanburði og viðhorfskönnunum. Unnið hefur verið að gerð skorkorta frá árinu 2012. Nýjasta skorkortið er frá 2016 og sjá má niðurstöður þess hér fyrir neðan.
(Skorkort í vinnslu - birt síðar)
Byltur:
Byltur og föll eru einn af gæðavísum hjúkrunar og leggja skal áherslu á að halda þeim í lágmarki. Bylta er þegar einstaklingur fellur óviljandi á gólf, jörð eða annan lágan flöt. Sig eða lekur niður á gólf er skilgreint sem bylta.
Atvik:
Með atviki er átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem hafa valdið íbúa tjóni eða voru til þess fallin að geta valdið íbúa tjóni. Þá getur atvik átt við slys sem íbúar, starfsfólk eða aðrir gestir verða fyrir, skemmdir á eigum íbúa og heimilis, þjófnaður eða ofbeldi gagnvart starfsmanni eða íbúa.
Lyfjaatvik:
Atvik sem snúa að því þegar lyf eru ekki gefin með réttum hætti, á réttum tíma, án skráðra fyrirmæla, lyfjagjöf er sleppt eða þegar íbúi fær röng lyf eða rangan lyfjaskammt.
Lyf:
Undir lyf falla öll lyf sem íbúum eru gefin, þar á meðal vítamín, lýsisperlur, augndropar og fleira.
Þjónusta:
Samkvæmt niðurstöðum fyrir árið 2016 er markmiðum náð í öllum flokkum nema ánægju aðstandenda og í undirflokkunum „notkun níu lyfja eða meira“ og „byltur“ sem heyra undir árangur þjónustu.
Sérfræðiþekking hefur aukist frá fyrri árum og hefur fjöldi sérfræðinga á sviði öldrunarvísinda og heilbrigðis- og félagsvísinda aukist frá 2015 eftir að hafa verið nokkuð stöðugur frá 2013. Hlutfall fagmenntaðra hefur þá verið að aukast á undanförnum árum og stendur í 60,7% í desember 2016. Ánægja íbúa með þjónustuna var síðast mæld 2013 og var þá í 85,7% en hefur aukist síðan þá upp í 93,7%. Ánægja aðstandenda ver einnig síðast mæld 2013 og hefur hlutfall ánægðra aðstandenda lækkað úr 93,4% niður í 88,2%.
Settum árangursmarkmiðum sem byggja á skilgreindum gæðavísum, var náð í öllum tilvikum nema í sambandi við notkun lyfja og byltur. Þar var sett markmið um að notkun níu lyfja eða meira færi ekki umfram 52% en hlutfallið fyrir 2016 er 73,83%. Á meðan hlutfall lyfjanotkunar er mjög hátt og fer langt umfram sett markmið þarf að hafa í huga að undir lyf falla ýmis fæðubótarefni, til að mynda lýsi svo og vítamín. Auk þess falla augndropar sem eru meðal annars gefnir við augnþurrki undir lyf. Þetta útskýrir að einhverju leyti hátt hlutfall lyfjanotkunar, skv skorkorti, auk þess sem að fólk kemur sífellt eldra og veikara inn á öldrunarheimili og að hjúkrunarheimilin hafa tekið að einhverju leyti við hlutverkum langlegudeilda sjúkrahúsa. Þá eru nýjir íbúar oftast að taka einhver lyf að staðaldri þegar þeir flytja inn, en með lágum meðallegutíma (2,3 árum árið 2016) tekst oft ekki minnka lyfjanotkun einstaklingsins á meðan hann býr á hjúkrunarheimilinu, þrátt fyrir stefnu hjúkrunarheimilisins varðandi lyfjanotkun. Samkvæmt grunngildum Eden stefnunnar skulu lyfjagjafir ekki stjórna umönnun einstaklingsins heldur þjóna henni. Byltur voru 17,76%, árið 2016 en markmiðið var 12%, Þá eru efri gæðaviðmið samkvæmt gæðavísum fyrir RAI-mat 17,3% svo þar er þörf á umbótum.
Heildarfjöldi atvika var sá sami og markmið var fyrir 2016. Þar hefur átt sér stað tiltölulega mikil fækkun atvika frá því 2015, en fjöldi atvika 2016 var 380 á meðan fjöldi atvika 2015 var 585, eða 205 skiptum færra. Þá er þetta lægsti fjöldi atvika síðan að fyrsta skorkortið kom út 2012 en þá voru atvik 444. Af þessum 380 atvikum voru 57 lyfjaatvik sem er umtalsvert lægra en markmiðið sem kvað á um 90 lyfjaatvik. Síðan 2012 höfðu lyfjaatvik mest farið niður í 60 árið 2013 svo að síðan 2012, að fyrsta skorkortið kom, hafa lyfjaatvik ekki verið færri.
Þá voru bæði verkir og þunglyndiseinkenni undir markmiðum, en verkir á skalanum 0-3 voru 1,33 sem er örlítil hækkun frá síðasta ári, en undir markmiðunum uppá 1,45. Þunglyndiseinkenni voru samkvæmt skorkorti í 37,85% tilfella en tölur yfir þunglyndiseinkenni hafa farið lækkandi síðan 2012 að þær mældust 68%. Þá má nefna að aðalástæður vanlíðunar hjá íbúum öldrunarheimila eru einmanaleiki, vanmáttarkennd og leiði, en Eden stefnunni, sem er leiðandi í hugmyndafræði hjúkrunarheimilisins, er ætlað að vinna gegn þessum þáttum og auka lífsgæði íbúanna.
Mannauður
Samkvæmt viðhorfskönnun eru 85% starfsfólks mjög ánægt í starfi. Þetta er örlítil hækkun frá því í fyrra þegar ánægja starfsfólks mældist 83% í viðhorfskönnunum. Viðhorfskannanir sýndu einnig fram á að 97% starfsfólks þekkir gildin og 88% starfsfólks vinnur eftir stefnu og gildum hjúkrunarheimilisins. Þá telur 81% starfsmanna að samstarfsfólk leggi sig fram í starfi. Þar sjáum við hækkun frá því í fyrra, en þá töldu 77,15% að samstarfsfólk leggi sig fram í starfi. Þá töldu 82,5% starfsmanna að þau ynnu í jákvæðu og hvetjandi starfsumhverfi.
Starfsmannavelta hefur verið á milli 10 og 19% síðan 2012 og var starfsmannavelta 14% árið 2016. Hlutfall karla var langt undir markmiðum en karlar voru 3,8% starfsmanna við umönnun árið 2016. Hæst hefur hlutfall karla í umönnun verið 7,8% árið 2013. Vonir standa til að í framtíðinni náist jafnari kynjaskipting í umönnunarstörfum hjá hjúkrunarheimilinum og meðal annars hefur verið hvatt karla til sækja um störf í atvinnuauglýsingum og þá var leitað sérstaklega að karlmönnum til að starfa í umönnun í starfsauglýsingu um sumarstörf 2016 og 2017.
Rekstur
Árið 2016 voru 60% starfseininga innan hjúkrunarheimilisins reknar innan fjárhagsramma. Þá er nýting rýma á ársgrundvelli mjög góð, en nýting rýma til hvíldarinnlagna, dvalar- og hjúkrunarrýma og dagþjónusturýma er 101%. Launagjöld voru 102,6% en önnur rekstrargjöld 95,9%.
Þróun, gæði og ferlar- stöðug þróun
Enn er unnið að skilgreindum árangursviðmiðum í gæðahandbók fyrir allar starfseiningar. Sömu sögu er að segja um skilgreinda verkferla fyrir alla helstu þjónustuþætti.
Samkvæmt viðhorfskönnun telur 71% starfsfólks sig hafa tækifæri til að koma að þróun þjónustunnar sem er hækkun frá því í fyrra þegar 63,9% starfsfólks taldi sig hafa slík tækifæri. Þetta er þó enn langt undir x>90% markmiðinu.
57% starfsfólks hafa fengið formlega þriggja daga fræðslu um Eden hugmyndafræðina og gildi og stefnu hjúkrunarheimilanna. Þetta er töluvert undir markmiði, en markmiðið er að allir starfsmenn fái tækifæri til að fara á Eden námskeið. Taka þarf þó fram að tölfræði þessi vísar til allra starfsmanna, einnig þeirra sem koma ekki að umönnun íbúa og þeirra sem hafa styttri starfsaldur en eitt ár. Síðast var haldið námskeið, fyrir starfsfólk, um Eden og Þjónandi leiðsögn í mars til apríl 2017. Þá var því starfsfólki sem hafði ekki farið á Eden námskeið boðið að fara á slíkt námskeið.
Þá er áhugavert að skv. viðhorfskönnun starfi 88% starfsfólks skv stefnu og gildum og 97% starfsfólks þekki gildin. Þessi munur á því hve margir sækja námskeiðið og hve margir þekkja og vinna eftir stefnunni skýrist mögulega á því að nýtt starfsfólk sé að tileinka sér frá byrjun að vinna eftir hugmyndafræði hjúkrunarheimilanna, þar sem hún sé orðin samtvinnuð vinnustaðnum.
Þrátt fyrir að enn sé í vinnslu að koma á formlegu og stefnubundnu samstarfi við háskólastofnun hafa verið og eru enn mörg verkefni í gangi sem byggja á samstarfi hjúkrunarheimilanna við HA og aðrar háskólastofnanir. Þar má til dæmis nefna verkefni sem er unnið í samstarfi við HA og Genis á Siglufirði um Benecta fæðubótarefnið. Þá hafa nemar frá HA komið í starfsnám hjá hjúkrunarheimilin.
Efling velferðar- og upplýsingatækni til íbúa er þá enn í vinnslu en mikil þróun hefur verið í þeim efnum á síðustu árum, til að mynda með ALFA-verkefninu, Timian og Sögukerfinu.