top of page
Hlid-hjukrunarh.jpeg
Snoezel skynörvunarými

Snoezel skynörvunarrými

Skyntúlkun okkar er mikilvægur þáttur í að við skiljum okkur og að við finnum okkur í samhengi við umhverfið. Að við vitum hver við erum og hvar við erum.

Að túlka og bregðast við því sem við skynjum í umhverfinu hjálpar okkur að aðlagast umhverfinu og bregðast við áreiti. Skyntúlkun fer fram í öllum aðstæðum í daglegu lífi.

Einstaklingar með miðlungs til langt genginn heilabilunarsjúkdóm upplifa oft ójafnvægi í skyntúlkun. Það getur verið þeim erfitt að túlka aðstæður og að bregðast við á eðlilegan hátt við því sem þeir skynja í umhverfinu. Til dæmis geta þeir sýnt ofurviðkvæmni fyrir hljóðum eða að þeir upplifa sig í lausu lofti. Þetta getur hugsanlega tengst brenglun í flutningi boðefna í heilanum, til dæmis á boðefninu Serótónín sem hefur meðal annars áhrif á líðan og árveknistig (e. low/high arousal). Hvort sem um er að ræða lágt eða hátt árveknistig fylgir þessu oft ákveðin andleg vanlíðan sem brýst gjarnan út í því sem oft er kallað „vandamálahegðun".


Auk vanlíðunar og álags fyrir einstaklinginn sjálfan getur þetta líka valdið töluverðu álagi fyrir fólk í nánasta umhverfi viðkomandi, svo sem starfsfólk í umönnunarstörfum og aðstandendur.

Þegar unnið er markvisst með skilningarvit fólks er það til að koma jafnvægi á árvekni (e. arousal) þess og auka vellíðan. Á hjúkrunarheimilunum er nú þegar unnið með skilningarvit fólks í einhverju mæli og má til dæmis nefna Sólskinsklúbbinn, Gleðidansinn og sönginn. Í Hlíð er búið að útbúa svo kallað Snoezel herbergi með það að markmiði að vinna markvisst með skynúrvinnslu hjá fólki með heilabilun og reyna með því að fyrirbyggja og draga úr „vandamálahegðun" ásamt því að auka vellíðan þeirra.


Snoezel herbergið er opið öllum sem njóta þjónustu á hjúkrunarheimilanna og eru starfsmenn einnig hvattir til að setjast þar inn og nýta sér tæknina. 

Snoezel - skyntúlkun hjá einstaklingum með heilabilun.

Snoezel - fylgiskjal með myndum og texta fyrir skynörvunarrými.

Mikilvægt er að hafa hugfast að alltaf þegar verið er að vinna með vellíðan fólks skipta samskipti og góð gagnkvæm tengsl miklu máli. Upplýsingar um einstaklinginn þurfa að vera til staðar og þar gegnir lífssagan lykilhlutverki en hana má nálgast hér.

Footer
bottom of page