Fara á efnissvæði

Heilsuvernd Hjúkrunarheimili

Heilsuvernd Hjúkrunarheimili eru staðsett í Hlíð og Lögmannshlíð. Heimilin eru rekin fyrir alls 182 íbúa og þar af eru hjúkrunarrými fyrir 155, dvalarrými fyrir 7 og 21 hjúkrunarrými fyrir tímabundna dvöl.

Heilsuvernd Hjúkrunarheimilin eru rekin af Heilsuvernd ehf., samkvæmt sérstökum samningi við ríkið og eru hluti af félagsþjónustu Akureyrarbæjar. Samkvæmt samningi við nágrannasveitarfélög eiga aldraðið íbúar þeirra einnig kost á þjónustu hjúkrunarheimilanna.

Heilsuvernd Hjúkrunarheimili eru á tveimur stöðum, Hlíð og Lögmannshlíð, og reka heimili fyrir alls 182 íbúa. Þar af eru hjúkrunarrými fyrir 155, dvalarrými fyrir 7 og 21 hjúkrunarrými fyrir tímabundna dvöl.

Hlutverk

Hlutverk Heilsuvernd Hjúkrunarheimila er að tryggja öldruðum vistlegt heimili, hjúkrun, þjálfun og aðhlynningu eftir þörfum hvers og eins og veita ávallt bestu mögulegu þjónustu með áherslu á vellíðan og ánægju íbúa.

Á hjúkrunarheimilunum er rekin dagþjónusta, mötuneyti, þvottahús og lítil verslun, auk þess sem boðið er upp á iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, fjölbreytt félagsstarf, læknisþjónustu, hársnyrtingu, fótaaðgerðir, margs konar afþreyingu o.fl.

Markmið

Markmið allrar þjónustu sem veitt er á Heilsuvernd Hjúkrunarheimilunum er að tryggja öryggi og vellíðan íbúa og standa vörð um sjálfsmynd þeirra og sjálfsvirðingu. Lögð er áhersla á virðingu fyrir einstaklingnum og að tekið sé tillit til viðhorfa hans og þarfa eins og kostur er. Einnig er lögð áhersla á endurhæfingu og að viðhalda þeirri færni sem fyrir hendi er. Jafnframt er hugað að þörfum hvers og eins fyrir félagsskap og þátttöku í dægradvöl.

Eden hugmyndafræðin

Heilsuvernd hjúkrunarheimilin starfa eftir Eden hugmyndafræðinni: 

Eden hugmyndafræðin leggur áherslu á að skapa innihaldsríkt líf þar sem íbúar fá tækifæri til þátttöku. Einmanaleiki, vanmáttarkennd og leiði eru oft meginástæður vanlíðunar íbúa á hjúkrunarheimilum. Með hugmyndafræðinni eru skapaðar aðstæður til að vinna gegn vanlíðan og þannig stuðla að velllíðan, innihalds- og tilgangsríku lífi íbúa. 

Áhersla er lögð á fjölbreytileika í daglegu lífi til að auðga líf hvers og eins.