top of page
Hjukrunarheimilin.jpg

Hjúkrunarheimilin

Heilsuvernd Hjúkrunarheimili eru rekin af Heilsuvernd ehf., samkvæmt sérstökum samningi við ríkið og eru hluti af félagsþjónustu bæjarins. Auk aldraðra Akureyringa eiga aldraðir íbúar nágrannasveitarfélaga einnig kost á þjónustu á hjúkrunarheimilunum samkvæmt sérstökum samningi við nágrannasveitarfélögin.

Umfang heimilanna

Umfang og verkefni hjúkrunarheimila hafa breyst undanfarna áratugi í breyttu þjóðfélagi. Heimaþjónusta og heimahjúkrun hefur stóraukist svo að aldraðir geti sem lengst búið í heimahúsum í samræmi við óskir flestra aldraðra. Mikið heilsuleysi hrjáir því marga aldraða þegar þeir flytja á hjúkrunarheimili. Afleiðing þessarar þróunar er að dvalarrýmum hefur fækkað en hjúkrunarrýmum fjölgað til muna á hjúkrunarheimilum. Segja má að hjúkrunarheimili hafi tekið við þeirri þjónustu við aldraða sem langlegudeildir sjúkrahúsa sinntu áður.

Samkvæmt skilgreiningu í lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 eru dvalarrými ætluð öldruðum einstaklingum sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu, en hjúkrunarrými ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum.

Heilsuvernd Hjúkrunarheimili eru á tveimur stöðum og reka heimili fyrir alls 182 íbúa og þar af eru hjúkrunarrými fyrir 155, dvalarrými fyrir 10 og 17 hjúkrunarrými fyrir tímabundnadvöl og hvíldardvöl.

 

Heimilin eru:

  • Hjúkrunar- og dvalarheimilið Hlíð, þar eru 137 íbúi og flestir eru í hjúkrunarrýmum.

  • Hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð, þar eru 45 íbúar í hjúkrunarrýmum.
     

Á hjúkrunarheimilunum starfa um 260 manns í tæplega 220 stöðugildum. Mikið starfsmannalán hefur fylgt hjúkrunarheimilunum í gegnum tíðina og hafa flestir starfsmenn starfað á heimilunum árum saman.

Hlutverk Heilsuvernd hjúkrunarheimila

Hlutverk Heilsuvernd Hjúkrunarheimila er að tryggja öldruðum vistlegt heimili, hjúkrun, þjálfun og aðhlynningu eftir þörfum hvers og eins og veita ávallt bestu mögulegu þjónustu með áherslu á vellíðan og ánægju íbúa.

Á hjúkrunarheimilunum er rekin dagþjónusta, mötuneyti, þvottahús og lítil verslun, auk þess sem boðið er upp á iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, fjölbreytt félagsstarf, læknisþjónustu, hársnyrtingu, fótaaðgerðir, margs konar afþreyingu o.fl.

Markmið allrar þjónustu sem veitt er á Heilsuvernd Hjúkrunarheimilunum er að tryggja öryggi og vellíðan íbúa og standa vörð um sjálfsmynd þeirra og sjálfsvirðingu. Lögð er áhersla á virðingu fyrir einstaklingnum og að tekið sé tillit til viðhorfa hans og þarfa eins og kostur er. Einnig er lögð áhersla á endurhæfingu og að viðhalda þeirri færni sem fyrir hendi er. Jafnframt er hugað að þörf fyrir félagsskap og þátttöku í dægradvöl.

Skipulag og stjórnendur

Forstjóri Heilsuverndar og samstæðu

Teitur Guðmundsson
 

Framkvæmdastjóri Heilsuverndar Hjúkrunarheimila

Þóra Sif Sigurðardóttir

 

Framkvæmdastjóri mannauðs Heilsuverndar og samstæðu

Hanna Guðlaugsdóttir

Hjúkrunarheimilin
Footer
bottom of page