Fara á efnissvæði

Barnaleikir fyrr og nú

Síðasta haust fór af stað verkefnið ,,Barnaleikir fyrr og nú“ á Heilsuvernd Hjúkrunarheimilunum. Verkefnið fól í sér að 2. bekkur í grunnskólunum á Akureyri ásamt Þelamerkurskóla í Hörgársveit var boðið í heimsókn í Hlíð og Lögmannshlíð. Þar var tekið á móti hópunum og fengu þau stutta fræðslu og spjall um leiki barna á árum áður. Rætt var um muninn á leikföngum sem þau eiga og leikföng sem eldra fólkið átti á sínum uppvaxtarárum. En einnig eitt það dýrmætasta sem við eigum þegar kemur að því að skapa og leika, ímyndunaraflið.


Alls komu 230 börn í heimsókn í Hlíð og Lögmannshlíð, það var mikið líf og fjör sem fylgdi þeim. Þau voru áhugasöm, spurðu mikils og duttu fljótt í spjall við íbúa. Skoðuðu gamlar bækur, bein, skeljar, horn og ýmis önnur leikföng sem voru á staðnum. Þau voru ekki lengi að bregða á leik og nýta ímyndunaraflið sitt. Krakkarnir kvöddu heimilsfólki með skemmtilegum söng og skildu eftir óminn af hlátri og gleði um allt hús.

Skemmtilegt samstarf sem vonandi verður haldið áfram næsta vetur.