Fara á efnissvæði

Hundruðustu jólin

,, Þetta verða hundruðustu jólin mín, sem er svo skrítið því mér finnst ég ekkert vera gömul."

Segir Lára Brynhildur íbúi á Lögmannshlíð. Lára er fædd og uppalin í Reykjavík en flutti til Akureyrar upp úr 2000.

,,Ég á voðalega góða minningar, við vorum 15 systur og alltaf biðum við spenntar eftir því að klukkan yrði sex á aðfangadag. Þá vorum við allar uppstrílaðar og okkur raðað við borðið. "

Lára segir foreldra sína alltaf hafa verið uppábúin og allt í ró og spekkt þrátt fyrir stóran barnahóp. Jólatréð var skreytt á aðfangadag og stelpurnar fengu ekki að sjá það fyrr en klukkan sló sex. Jólatréð var lítið fallegt spítutré sem var vafið með greni og skreytt með jólapokum og hinu og þessu skrauti sem systurnar höfðum búið til. Húsið var svo skreyta með músastigum og grenigreinum. Það var sett skraut á allar myndir og upp í loft. Alltaf var það sama í matinn á jólunum, lambalæri á aðfangadag og hangikjöt á jóladag. Súkkulaðibúðingur með rjóma og kokteilávextir í eftirrétt.

,,Allt var svo hátíðlegt, ekki var mikið af pökkum en við fengum alltaf falleg föt. Ég var mikið að lita og teikna þegar ég var lítil og ég fékk oft litabækur í jólagjöf sérstaklega eftir að eldri systur mínar voru farnar að heiman þá voru þær duglegar að gefa mér. "

Systurnar hittust alltaf á jóladag hjá foreldrum sínum, þá var gengið í kringum jólatré og sungið mikið bæði sálma og lög. Sumar systurnar spiluðu á gítar og pabbi þeirra spilaði á orgel undir.

,,Ég átti gott heimili, þó við værum svona margar systurnar, en minningarnar eru góðar og það var bara gaman hjá okkur. "      

Lára segir sínar jólahefðir hafa verið svipaðar þegar hún var að ala upp sín börn. Jólaundirbúningurinn byrjaði á því að sauma og prjóna föt handa börnunum. Síðan voru bakaðar ósköpin öll af smákökum og brauð.

,,Það var alltaf mikill bakstur fyrir jólin og allt varð að vera hreint! Það var máltak hjá okkur systrunum: ég gerði allt hreint nema loftin."

Við gáfum krökkunum okkar yfirleitt einhvern leiktæki, dúkka og bílar. Föðuramma barnanna minna var kaupkona, hún prjónaði og heklaði mikið og gaf börnunum í jólagjöf. Ein jólin báðu þau þó ömmu sína um harða pakka. Þá fengu strákarnir bíla en mikið af prjónaflíkum með. Svo það er ekki nýtilkomið að börnin vilji frekar harðapakka. Það voru aldrei stórar gjafir en alltaf gjafir fyrir alla. Lára hélt í þá hefð að skreyta jólatréð og fengu krakkarnir ekki að sjá það fyrr en á aðfangadag. Börnin og húsið var puntað og gert fínt áður en sest var til borðs og alltaf var það á slaginu klukkan sex.

,,Ég man ein jólin, þá var maðurinn minn á sjó og ég var ein með börnin. Þegar við vorum sest við borðið á aðfangadag spyr ég þau hvort þetta sé ekki bara allt í lagi þó pabbi sé ekki heima, svona til þess að vera glöð og hress fyrir þau. Þá segir eldri sonur minn sem hefur verið 7 ára, nei ef pabbi væri hér sæti hann þarna í hvítri skyrtu. En við náðum að gera góð jól úr þessu."

Lára minnist þess einnig að ein jólin hafi maðurinn hennar brugðið sér í gervi jólasveins fyrir krakkana. Þegar hann kom inn þá hafði hann farið öfugt í úlpu með gæruskinni inn í  sett prjóna húfu á hausinn og skemmti þeim, þau föttuðu ekki neitt.

,,Það þótti mér verst að pabbi skildi ekki vera heima" sögðu þau.

Þegar Lára var orðin ein í heimili og flutt norður á Akureyri, hélt hún að mestu í matarhefðir sínar á jólunum og var um jólin með dóttur sinni sem er búsett hér. Hún segist þakklát fyrir góðar minningar og að líf hennar hafi verið gott. Hún sé skapgóð og telur það hafa hjálpað sér. Láru líður einstaklega vel í Lögmannshlíð og segist vera þakklát fyrir stafsfólkið sem henni þykir afskaplega vænt um.                         

,,Það var alltaf gaman og ég á bara góðar minningar."