Fara á efnissvæði

Systur saman í Lögmannshlíð

Lára Brynhildur og Magnfríður Dís búa tímabundið saman á herbergi í Lögmannshlíð þar sem Lára hefur fasta búsetu. 

Þær systur hafa alltaf verið nánar þrátt fyrir átta ára aldursmun, en Lára verður 99 ára á þessu ári og Magnfríður 91 árs. Þær ólust upp í fimmtán systra hóp í Sogamýrinni í Reykjavík, þar sem foreldrar þeirra voru með búskap eins og margir á þessum tíma.

Þær segjast muna það vel þegar herinn kom til landsins. Þeir hafi sett niður bragga á túnunum í Sogamýrinni og þá hafi faðir þeirra þurft að skipta um gír því ekki voru lengur tún til að heyja fyrir kýrnar.

,,Hann var útsjónasamur maður hann pabbi og þegar forsendurnar breyttust ákvað hann að gerast hænsnabóndi, það þurfti ekkert að heyja ofan í þær og allir þurftu egg. "

Þær tala fallega um æsku sína og segja sig aldrei hafa skort neitt þrátt fyrir stórt heimili. Móðir þeirra kom sjálf af stóru heimili og var fólkið hennar mikið að koma í heimsókn.

,,Það var alltaf fullt hús, alltaf nóg til af mat og öllu, allir velkomnir og við þekktum ekkert annað, við eigum bara góðar minningar frá þessum tíma."

Lára Brynhildur hefur búið á Akureyri síðan upp úr 2000 og verið í Lögmannshlíð síðust árin en Magnfríður býr í Kópavogi. Eftir að Lára flutti norður hefur hún verið dugleg að fara suður í heimsókn og gisti þá hjá systur sinni. Þegar upp kom sú staða í vor að Magnfríður þurfti að sækja um tímabundnadvöl og ekkert var að fá í Reykjavík var ákveðið að láta reyna á það að sækja um dvöl í Lögmannshlíð hjá Láru.

,,Dóttir mín ákvað bara að athuga með þetta og það var bara tekið vel í það með því skilyrði að ég myndi leyfa þetta og auðvita gerði ég það. Svo hér erum við saman í herbergi og ekki enn farnar að rífast. En við höfum svo sem aldrei gert það"

Þær hlæja að minningunum um það þegar Lára heimsótti Magnfríði suður að þá hafi þær setið í sitt hvorum stólnum í stofunni í litlu íbúðinni hennar Magnfríðar og kallast á því þær væru farnar að heyra illa. Nú gera þær það sama bara á nýjum stað.

,,Það fer óskaplega vel um okkur hérna saman, aðbúnaður er góður og starfsfólkið yndislegt og kaffið, kaffið er líka gott"